Sport

Valsmenn bjóða frítt í Höllina

Valur tekur á móti H/C Tbilisi í dag og á morgun í 1. umferð Evrópukeppni félagsliða í handbolta og fara báðir leikirnir fram í Laugardalshöll. Leikurinn í dag hefst klukkan 17 og á morgun er leikið klukkan 14.10. Ókeypis er á leikina og því um að gera fyrir handboltaunnendur að fjölmenna. Lítið er vitað um þetta georgíska lið og því má segja að Valsmenn renni blint í sjóinn fyrir viðureignirnar tvær. Fréttablaðið hafði samband við Óskar Bjarna Óskarsson, þjálfara Vals, sem var spenntur fyrir viðureignunum við þetta nánast óþekkta lið. "Við vitum að þeir eru með ungt lið, það er eina vitneskja okkar um þá. Við reyndum að sjálfsögðu að fá upplýsingar um liðið í gegnum Róland Val Eradze, fyrrum Valsmann. Hann tók hins vegar þann pól í hæðina að tjá sig hvorki við okkur né Georgíumennina en þjálfari þeirra er góðvinur hans frá því hann lék í heimalandinu." "En annars held ég það skipti ekki öllu máli þó við vitum lítið um andstæðingana því við þurfum að hugsa um okkur sjálfa. Við erum með mikið breytt lið frá því á síðasta tímabili, höfum misst fjóra leikmenn og fengið aðeins einn." "Þrátt fyrir að við séum með óreynt lið í svona Evrópukeppni vil ég nú meina að við ættum að fara áfram, því heimavöllurinn gefur okkur ákveðið forskot og vonandi að við fáum góðan stuðning. Ég er afar þakklátur fyrirtækjunum Danól, Norðlenska og Ölgerðinni fyrir að bjóða fólki frítt á völlinn. Það er búið að leggja mikið í þetta dæmi, það kostaði okkur 1,8 milljónir króna að fá leikina báða hér á landi," sagði Óskar Bjarni, þjálfari Vals.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×