Capello með fæturna á jörðinni
Fabio Capello, þjálfari Juventus, segir að byrjun liðsins í deildarkeppninni á Ítalíu sé ekkert til að hrópa húrra fyrir þrátt fyrir fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar og hefur áhyggjur af leiknum við Udinese annað kvöld. "AC Milan hefur spilað tvo útileiki, en við tvo heimaleiki og því gæti staðan verið orðin allt önnur um næstu helgi," sagði Capello í samtali við ítalska blaðið La Gazzeto de la Sport, en Juve hefur verið á toppnum síðan hann tók við liðinu í byrjun síðustu leiktíðar. "Mér finnst liðið enn geta bætt sig töluvert og ég var til að mynda ekki sáttur við spilamennskuna í fyrri hálfleiknum gegn Ascoli um helgina," sagði Capello.