Sport

Liðsstyrkur til FH

"Ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta sé einn besti leikmaður sem komið hefur hingað til lands sem atvinnumaður í kvennaboltanum, án þess að ég vilji vera að kasta rýrð á þá leikmenn sem fyrir eru," sagði Örn Magnússon, formaður handknattleiksdeildar FH, þegar Fréttablaðið spurði hann út í nýja leikmann liðsins, dönsku skyttuna Maju Grönbek, sem lék sinn fyrsta leik fyrir liðið í gærkvöld. "Hún hefur gríðarlega reynslu og við sáum það strax á fyrstu æfingunni hennar að hún er klassaleikmaður. Hún sagði skilið við lið sitt á Spáni á dögunum og Kristján Halldórsson þjálfaði hana á sínum tíma í Danmörku, þannig að hann þekkir hana vel. Ég á von á því að hún eigi eftir að styrkja lið okkar mjög mikið og við látum ekki staðar numið þar, heldur eigum von á að landa öðrum sterkum leikmanni á allra næstu dögum. Það er mikill metnaður hjá okkur í FH og þó við gerum okkur grein fyrir að við kannski gerum liðið ekki að Íslandsmeisturum strax, ætlum við okkur stóra hluti á næstu árum," sagði Örn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×