Sport

Sigga Sveins-vörnin tryggði sigur

HK og Stjarnan áttust við í DHL-deild karla í Digranesi í gærkvöldi og það voru gestirnir úr Garðabænum sem höfðu betur í sannkölluðum hörkuslag. Leikur liðanna var hnífjafn allt fram í miðjan síðari hálfleikinn, þegar gamla kempan Patrekur Jóhannesson tók til sinna ráða og lagði grunninn að sigri sinna manna með þremur mörkum í röð. Eftir að jafnt hafði verið í hálfleik, 9-9 og 15-15 þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka, þjöppuðu Stjörnumenn sér saman í vörninni og Patrekur lét þá fyrst til sín taka í sóknarleiknum. Hann skoraði öll fimm mörk sín í síðari hálfleik og leiddi sína menn til sigurs, 23-19, í þessum mikla baráttuleik. "Þetta var í einu orði sagt ömurlegt. Bæði í sókn og vörn og ég gat ekki séð að nokkur maður inni á vellinum hefði áhuga á því að leggja sig fram í þessum leik. Það var enginn að gera neitt af því sem við lögðum upp með fyrir þennan leik og menn vinna ekki leik í þessari deild með því að skora 19 mörk," sagði Héðinn Gilsson, aðstoðarþjálfari HK." Sigurður Bjarnason, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar var öllu kátari með sína menn og þakkaði góðri vörn sigurinn. "Það var Sigga Sveins-vörnin og liðsheildin sem skóp þennan sigur," sagði Sigurður hlæjandi. "Við náðum að halda niðri hraðanum gegn góðu sóknarliði og Patrekur var mjög mikilvægur á lokakaflanum," sagði Sigurður



Fleiri fréttir

Sjá meira


×