Sport

Haukasigur í Meistaradeildinni

Haukar unnu 3 marka sigur á ítalska liðinu Meran 32-29 Meran í Meistaradeildinni í handbolta nú undir kvöldið en leikið var að Ásvöllum. Haukar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11 eftir að hafa verið undir á tímabili í fyrri hálfleik. Yfirburðir Hauka voru nokkrir í seinni hálfleik en þeir slökuðu á eftir að hafa náð 7 marka forystu á tímabili. Þetta var fyrsti sigur Hauka í þremur leikjum í sínum riðli í Meistaradeildinni. Bæði lið höfðu tapað báðum leikjum sínum í keppninni til þessa fyrir þennan leik. Haukar ætla sér þriðja sætið í riðlinum en það gefur sæti í þriðju umferð í Evrópukeppni félagsliða. Í gær vann Magdeburg Bregenz 37-27 í Meistaradeildinni. Arnór Atlason skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg og Sigfús Sigurðsson tvö. Dagur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Bregenz. Fotex Veszprem frá Ungverjalandi vann Ciudad Real 31-29. Ólafur Stefánsson skoraði tvö mörk í leiknum. Ademar Leon vann Celje Lasko 27-26, Barcelona skellti Zaporoyhe 31-22, Flensburg vann Paris St Germain 37-24, Portland lagði Kadetten 31-22 og Sävehof bar sigurorð af Gagny 31-27.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×