Erlent

Samkomulag um sáttatilboð

Margaret Beckett Utanríkisráðherra Bretlands í Vínarborg í gær. fréttablaðið/ap
Margaret Beckett Utanríkisráðherra Bretlands í Vínarborg í gær. fréttablaðið/ap

Stórveldin fimm sem hafa neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, auk Þýskalands, náðu í gærkvöld samkomulagi um sáttatilboð til Írana.

Tilboðið felur í sér ýmsan efnahagslegan ávinning fyrir Írana gegn því að þeir falli frá starfsemi sem gæti gert þeim kleift að koma sér upp kjarnorkuvopnum, en refsiaðgerðir samþykki þeir það ekki. Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti þetta eftir fund ráðherra stórveldanna sex í Vínarborg.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar sögðust á miðvikudag reiðubúnir til að taka þátt í beinum viðræðum við Íransstjórn, að því gefnu að hún hætti auðgun úrans. Í þessu fólst stefnubreyting af hálfu Bandaríkjastjórnar, þar sem hún hefur í áratugi ekki verið tilbúin til að eiga bein samskipti á æðstu stigum við klerkastjórnina í Teheran.

 

Stórveldafundur Utanríkisráðherrar stórveldanna sex við samningaborðið í Vínarborg í gær. fréttablaðið/ap

En ráðamenn í Teheran hafa engan bilbug látið á sér finna. "Íran fagnar viðræðum með sanngjörnum skilyrðum, en við munum ekki gefa frá okkur réttinn [til nýtingar kjarnorkunnar]," hafði íranska ríkissjónvarpið eftir Manouchehr Mottaki utanríkisráðherra. Þessi ummæli féllu áður en samkomulagið um sáttatilboð stórveldanna náðist.

Samkomulagið þykir sæta tíðinum ekki síst fyrir þær sakir að það sameinar ekki aðeins vesturveldin fjögur, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland, heldur einnig Rússland og Kína að baki tilraunum alþjóðasamfélagsins til að fá Írana ofan af kjarnorku­áformum sínum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×