Kona á fertugsaldri lét lífið í bílslysi á Suðurlandsvegi við Langastaði í Flóahreppi, um hálf eittleytið aðfaranótt mánudags.
Konan, sem var ein á ferð, ók fólksbíl sínum í vesturátt, áleiðis til Reykjavíkur, þegar hún ók framan á jeppabifreið sem kom akandi úr gagnstæðri átt. Jeppabifreiðin valt við áreksturinn og kviknaði eldur í henni. Þrír karlmenn sem í henni voru náðu að forða sér út áður en bifreiðin varð alelda. Þeir sluppu án teljandi meiðsla en voru færðir til aðhlynningar á sjúkrahús á Selfossi. Þeir voru útskrifaðir samdægurs.
Konan var með lífsmarki þegar sjúkralið kom á vettvang og var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja konuna á slysadeild. Hún lést áður en þyrlan kom á slysstað.
Að sögn lögreglu voru akstursaðstæður eins og best verður á kosið. Tildrög slyssins eru ókunn en málið er í rannsókn lögreglunnar á Selfossi. Báðar bifreiðarnar eru taldar gjörónýtar eftir áreksturinn.
Ekki er hægt að birta nafn hinnar látnu að svo stöddu.