Skothríð upphófst í Kinshasa, höfuðborg Kongó, annan daginn í röð í gær, en spenna er mikil í borginni vegna nýafstaðinna forsetakosninga. Svo virtist sem skothríðin hefði átt sér stað nærri heimili fyrrverandi uppreisnarleiðtoga sem keppti við Joseph Kabila, sitjandi forseta, um embættið í kosningunum.
Samkvæmt úrslitum talningar, sem birt voru á sunnudag, fékk Kabila um 45 prósent atkvæða og þar með ekki nóg til að tryggja sér völdin strax í fyrri umferð kosninganna, en þær fóru fram þann 30. júlí. Skæðasti keppinautur hans, fyrrverandi uppreisnarleiðtoginn Jean-Pierre Bemba, hlaut fimmtung atkvæða. Kabila er forseti og Bemba varaforseti í bráðabirgðastjórn landsins.
Afgangur hinna tæplega sautján milljóna atkvæða sem talin voru dreifðust á tugi annarra frambjóðenda. Að sögn kjörstjórnar var kjörsókn um 70 prósent í þessum fyrstu lýðræðislegu kosningum sem fram hafa farið um langt árabil í þessu stríðshrjáða risalandi. Síðari umferð forsetakosninganna fer fram þann 29. október, með aðstoð friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.