Einar Sigurðsson verður ráðinn framkvæmdarstjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, á stjórnarfundi félagsins á morgun samkvæmt fréttastofu RÚV. Hallgrímur Geirsson, núverandi framkvæmdarstjóri útgáfufélagsins, lætur að sögn af störfum að eigin ósk.
Einar starfaði áður sem framkvæmdarstjóri Flugleiða. Hann hefur starfað sem framkvæmdarstjóri viðskiptaþróunar hjá IMG Gallup frá því í desember 2005.
Hann er kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands. Ekki náðist í Einar áður en Fréttablaðið fór í prentun.