Íslendingur af palestínskum ættum, Abraham Shwaiki, var í haldi lögreglu á flugvellinum í Tel Avív í 10 klukkustundir í gær og var að þeim tíma loknum vísað úr landi. Hann var sakaður um að ferðast á fölsuðu vegabréfi, sem ísraelskir lögreglumenn ógiltu síðan og tóku af honum.
Abraham, sem búið hefur á Íslandi frá 1990 og er íslenskur ríkisborgari, lenti í Tel Avív klukkan fjögur í fyrrinótt að íslenskum tíma. Hann ætlaði að heimsækja ættingja sína, meðal annars veikan föður.
Við komuna til Tel Avív beið lögregla eftir honum, færði hann til yfirheyrslu og tók af honum farsíma hans. Fyrstu tvær klukkustundirnar fékk hann ekkert að vita hvers vegna hann var í haldi. Þeir gerðu athugasemdir við nafn Abrahams, þar sem skírnarnafn hans er Ibrahim, en honum var gert að taka upp íslenskt nafn þegar hann fékk íslenskt ríkisfang.
Þá er fæðingarstaður hans skráður Jerúsalem í vegabréfinu, þar sem hann mátti ekki skrá óviðurkennda ríkið Palestínu sem fæðingarstað sinn, en það taka Ísraelar ekki gilt. Að loknum 10 tímum var Abraham fylgt í flugvél sem flutti hann aftur til London. Þaðan flaug hann til Íslands í gærkvöldi.
Díana Allansdóttir, eiginkona hans, segir Abraham ábyggilega ætla að reyna að komast aftur út. Ég held að það sé engin spurning. Hann á föður þarna sem er veikur og hann á níu systkini og það eru allir mjög spenntir að sjá hann og ætluðu að koma að sækja hann upp á flugvöll.
Ætlunin var að við færum öll en svo ákváðum við út af ástandinu að hann færi einn, sem betur fer. Díana segir það ólöglegt að ógilda vegabréf, sem eru eign íslenska ríkisins, og taka það af handahafa þess. Hún segir að líklega verði haft samband við ísraelsk yfirvöld vegna málsins.