Guðni Steinar Snæbjörnsson, 23 ára gamall Reykvíkingur, var í gær dæmdur í sextán mánaða fangelsi fyrir að eiga í kynferðislegum samskiptum við 14 ára gamla stúlku á hótelherbergi í Burnley. Frá þessu greindi fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, í gær.
Lögreglan í Burnley handtók Guðna á hótelherbergi í febrúar á þessu ári en hann hafði átt í samskiptum við stúlkuna í gegnum veraldarvefinn um nokkurt skeið. Samkvæmt fréttum BBC kom hann í tvígang til Burnley, í september og desember á síðasta ári, til þess að heimsækja stúlkuna, og dvaldi meðal annars á heimili hennar í september.
Líklegt þykir að hann geti losnað úr fangelsi innan fárra mánaða þar sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í sjö mánuði.