Skoðun

Konur og kosningar að vori

Samkvæmt fréttum eru allir stjórnmálaflokkar teknir að huga að uppstillingum á framboðslista vegna alþingiskosninga á komandi vori. Lítil fjölgun kvenna á Alþingi Íslendinga á liðnum árum hefur verið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna hér á landi. Konur eru tæpur þriðjungur þingmanna og sveitarstjórnarmanna og þriðjungur ráðherra.

Hlutur kvenna í stjórnmálum er ennþá óeðlilega rýr og endurspeglar ekki samfélagið. Það er nauðsynlegt að bæði kynin taki þátt í að móta samfélagið.

Það liggur ljóst fyrir að stjórnmálaflokkarnir sjálfir bera þyngsta ábyrgð á þessari þróun. Fléttulistar, þar sem konur og karlar raðast til skiptis á framboðslista, hafa skilað verulegum árangri, því það hefur iðulega skort á að konur eigi kost á að skipa svokölluð ,,örugg sæti, þ.e. sæti sem eru líkleg til að tryggja þeim kosningu. Fléttulistar sýna raunverulegan vilja stjórnmálaflokka til að jafna hlut kynjanna.

Meðalaldur á Alþingi hefur lækkað undanfarin ár en það eru fyrst og fremst ungir karlar sem hafa lækkað meðalaldurinn. Ungir karlar virðast því eiga auðveldara uppdráttar í stjórnmálum en ungar konur eða konur yfirleitt. Af umræðum að dæma virðist talið eðlilegt að aldur megi vega þungt við val á frambjóðendum, en kynferði síður.

Það er brýnt að veita stjórnmálaflokkunum ákveðið aðhald, nú þegar þeir hefjast handa við skipan á framboðslista. Hver verður hlutur kvenna? Nú er tækifæri til að horfa til reynslu þeirra kvenna sem koma til greina í framboð, meta hana að verðleikum og hvetja þær til þátttöku.

Því ber að fagna að félagsmálaráðherra hefur þegar skipað starfshóp með fulltrúum allra þing­flokka, sem ætlað er að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að jafna hlut kynjanna við næstu alþingiskosningar og mun starfshópurinn væntanlega vekja frekari athygli á þessu þarfa baráttumáli.

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×