Ég ætla að sækjast eftir fyrsta sætinu, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og varaformaður flokksins. Þorgerður skipaði fjórða sæti listans við kosningarnar 2003 en setur nú stefnuna á fyrsta sætið. Árni M. Mathiesen skipaði það sæti í síðustu kosningum en hann hefur afráðið að færa sig í Suðurkjördæmi.
Gunnar I. Birgisson var í öðru sæti í síðustu kosningum, Sigríður Anna Þórðardóttir í þriðja og Bjarni Benediktsson í fimmta sætinu. Gunnar hvarf af þingi þegar hann varð bæjarstjóri í Kópavogi og tók Sigurrós Þorgrímsdóttir sæti hans. Sigurrós sagðist í samtali við Fréttablaðið búast við að stefna á áframhaldandi þingmennsku. Ég stefni að því að fara fram, sagði hún en hefur ekki ákveðið eftir hvaða sæti hún muni falast.
Sigríður Anna Þórðardóttir sagðist enn vera að hugsa málið. Það hefur ekkert annað komið til greina en að ég haldi áfram, sagði hún og tók fram að enn væri nægur tími til stefnu til að ákveða sig.
Bjarni Benediktsson lýsti í Fréttablaðinu í gær yfir áhuga á að sækjast eftir aukinni ábyrgð í stjórnmálum þó hann hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um framboð.