Kjaraviðræðum leikskólakennara hefur nú verið vísað til sáttasemjara ríkisins.
Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir það mat leikskólakennara að ekki beri mikið í milli og vonast til að samningar takist áður en samningar leikskólakennara losna í lok september.
Viðræður leikskólakennara hafa staðið yfir með hléum frá í júní en um síðstu helgi hafnaði launanefnd sveitafélaga tillögu Félags leikskólakennara, sem félagið telur forsendu samkomulags.
Björg segir leiðréttingu launa leikskólakennara frá 1. janúar síðastliðinn hafa áhrif á kröfur þeirra nú.
Björg vildi ekkert gefa upp um kröfur leikskólakennara eða hvers eðlis þær væru. Þess má geta að laun nýútskrifaðs leikskólakennara eru 196.970 krónur á mánuði. Fyrsti fundur með ríkissáttasemjara hefur ekki verið ákveðinn.
Launanefnd sveitafélaga hefur ákveðið að framlengja tímabundnar heimildir sveitarfélaga sem samþykkar voru í janúar til viðbótargreiðslna umfram kjarasamning leikskólakennara. Heimildirnar gilda til gildistöku nýs kjarasamnings.