Skoðun

September-umferðin

Dagur B. Eggertsson skrifar
Miklabrautin undirstrikaði mikilvægi sitt í umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins í vikunni þegar vörubíll með tengivagn valt og dreifði gleri þvert yfir götuna. Atburðurinn undirstrikar mikilvægi þess að Sundabraut komi án tafar og að Öskjuhlíðargöng verði forgangsverkefni frekar en mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut-Miklubraut. Með Sundabraut og Öskjuhlíðargöngum fengi umferðarflæðið þrjá meginása frá austri til vesturs í stað þess að Miklabraut einni sé ætlað það hlutverk.

Það er því furðulegt að einu viðbrögð borgarstjóra í málinu hafi verið þau að lögreglan hafi átt að vera fljótari að sópa. Skilaboðin eru einföld: Sundabraut strax og Öskjuhlíðargöng í forgang. Þetta er stefna Samfylkingarinnar.

Þetta á ekki að vera erfitt að skilja. Meirihlutinn í borgarstjórn vill það þó ekki. Það er viðkvæmt að viðurkenna að ofuráhersla meirhlutans á Miklubraut eru mistök. Eftir vel heppnaðar aðgerðir á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar árið 2005 eru þau miklu öruggari og afkasta meiru en áður. Flöskuhálsarnir eru nú miklu frekar á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar annars vegar og hins vegar á Kringlumýrarbraut vegna bíla úr Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ sem myndu nýta sér Öskjuhlíðargöng á leið í og úr miðborginni.

Sundabraut, Öskjuhlíðargöng og stokkalausn á Miklubraut við Miklatún eru því allt verkefni sem eiga að koma á undan mislægum gatnamótum á Kringlumýrarbraut-Miklubraut. Slík aðgerð myndi einungis auka vandann við Lönguhlíð og raunar draga enn frekari umferð inn á þetta svæði og búa til flöskuhálsa á öllum næstu gatnamótum. Athuganir Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar sýndu enda fram á það að alls þyrfti mislægar framkvæmdir fyrir á annan tug milljarða á öllum næstu götuhornum ef mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut ættu að greiða fyrir umferð. Þar með sætum við uppi með eina allsherjar hörmung í hjarta borgarinnar, Houston - Reykjavík, takk fyrir. Og litlu betra umferðarkerfi í ofanálag - aðeins einn meginás frá austri til vesturs. 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×