George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, undirritaði í gær lög um herdómstóla, sem eiga að fjalla um mál grunaðra hryðjuverkamanna sem hafðir eru í haldi í Guantanamo á Kúbu. Jafnframt er í lögunum heimild til þess að harkalegum yfirheyrsluaðferðum, sem jaðra við pyntingar, sé beitt á þessa fanga.
„Frumvarpið sem ég undirrita í dag hjálpar til við að gera þetta land öruggara og sendir skýr skilaboð: Þessi þjóð er þolinmóð og siðprúð og sanngjörn og við munum aldrei láta undan hótunum gegn frelsi okkar,“ sagði Bush í gær. „Við erum jafn einörð í dag og við vorum að morgni 12. september árið 2001.“
Lögin eru sett vegna þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna komst í júní að þeirri niðurstöðu að fyrri dómstólar, sem skipaðir voru af Bush forseta án sérstakrar heimildar í lögum, og áttu að dæma í málum fanganna, brytu í bága við bæði bandarísk lög og alþjóðlega mannréttindasamninga.
Með því að gefa dómstólunum lagalega stoð vonast Bush til þess að ekkert standi lengur í vegi fyrir því að fangarnir, í það minnsta sumir þeirra, verði dregnir fyrir dómstóla.
Nýju lögin eru þó umdeild, ekki síst vegna þess að dómstólunum verður heimilt að nota vitnisburð sem fenginn er með umdeildum yfirheyrsluaðferðum. Einnig verður heimilt að nota upplýsingar, sem fangarnir sjálfir fá ekki að sjá, til þess að sakfella þá.