Nýi heimurinn vex sá gamli hrörnar 18. október 2006 06:00 Bandaríska hagstofan skráði í gær 300 milljónasta borgara Bandaríkjanna. Mannfjöldaþróun vestra og hér á Íslandi hefur lengi fylgzt að; íbúar Íslands urðu 300.000 í byrjun þessa árs. Það hlutfall hefur þannig haldizt óbreytt að Bandaríkjamenn séu réttum þúsund sinnum fleiri en við Íslendingar. En Ísland er nú eina Evrópuríkið sem á síðustu árum hefur haldið í við íbúafjölgunina vestanhafs. Fæðingartíðni er svo lág í flestum löndum Evrópu að útlit er fyrir að íbúum þeirra fækki umtalsvert á næstu áratugum, jafnframt því sem æ stærri hluti íbúanna verður á eftirlaunaaldri. Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna, sem á síðustu áratugum hefur sýnt sig að vera býsna nákvæm, mun jarðarbúum fjölga úr um það bil sex milljörðum nú í 9,1 milljarð árið 2050. Á sama tímabili er hins vegar útlit fyrir að íbúum Evrópulandanna 27, sem frá næstu áramótum fylla raðir Evrópusambandsins, fækka úr 482 milljónum í 454 milljónir. Og það þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir stöðugum straumi innflytjenda til gömlu Evrópu. Á sama tímabili er því spáð að íbúum Bandaríkjanna fjölgi í um 420 milljónir. Samkvæmt spá sem frönsk alþjóðamálastofnun gerði árið 2003 mun meðalhagvöxtur í Evrópulöndunum verða að meðaltali um eitt prósent á ári fram að miðri þessari öld, en yfir 2 prósent í Bandaríkjunum og að minnsta kosti 2,5 prósent í Kína. Í skýrslu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók saman nýlega segir ennfremur, að í það stefni að opinberar skuldir í aðildarríkjunum vaxi úr 63 prósentum af vergri landsframleiðslu nú í um 200 prósent árið 2050, ef stjórnvöld grípa ekki tafarlaust til agðerða til að sporna við fjárlagahalla og draga úr ríkisábyrgðum á eftirlauna- og velferðakerfum aðildarríkjanna. Í Rússlandi og Japan er útlitið enn svartara. Íbúafjöldi Japans er nú sagður hafa náð hámarki, 127 milljónum, og muni lækka undir 100 milljónir fyrir miðja öldina. Þetta þýðir 30 milljónum færri vinnufæra borgara á sama tíma og fjöldi fólks á eftirlaunaaldri nærri því tvöfaldast. Í Rússlandi fækkar íbúum nú um 700.000 á ári. Opinberar mannfjöldaspár gera ráð fyrir að Rússar verði einhvers staðar á bilinu 80 til 100 milljónir um miðja öldina, en þeir eru um 146 milljónir nú. Í niðurstöðu frönsku skýrslunnar sem vitnað er til hér að framan er sú ályktun dregin að Evrópa stefni hægt, en óafstýranlega að feigðarósi. Eflaust er þetta óþarflega svört lýsing, og aldrei að vita nema Evrópumenn eigi eftir að taka við sér í barneignum. En þessar mannfjöldaspár eru þörf áminning um að ekkert samfélag á sér bjarta framtíð nema það viðhaldi heilbrigðri frjósemi. Að þessu leytinu hefur Nýi heimurinn ótvírætt forskot á þann gamla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Auðunn Arnórsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Bandaríska hagstofan skráði í gær 300 milljónasta borgara Bandaríkjanna. Mannfjöldaþróun vestra og hér á Íslandi hefur lengi fylgzt að; íbúar Íslands urðu 300.000 í byrjun þessa árs. Það hlutfall hefur þannig haldizt óbreytt að Bandaríkjamenn séu réttum þúsund sinnum fleiri en við Íslendingar. En Ísland er nú eina Evrópuríkið sem á síðustu árum hefur haldið í við íbúafjölgunina vestanhafs. Fæðingartíðni er svo lág í flestum löndum Evrópu að útlit er fyrir að íbúum þeirra fækki umtalsvert á næstu áratugum, jafnframt því sem æ stærri hluti íbúanna verður á eftirlaunaaldri. Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna, sem á síðustu áratugum hefur sýnt sig að vera býsna nákvæm, mun jarðarbúum fjölga úr um það bil sex milljörðum nú í 9,1 milljarð árið 2050. Á sama tímabili er hins vegar útlit fyrir að íbúum Evrópulandanna 27, sem frá næstu áramótum fylla raðir Evrópusambandsins, fækka úr 482 milljónum í 454 milljónir. Og það þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir stöðugum straumi innflytjenda til gömlu Evrópu. Á sama tímabili er því spáð að íbúum Bandaríkjanna fjölgi í um 420 milljónir. Samkvæmt spá sem frönsk alþjóðamálastofnun gerði árið 2003 mun meðalhagvöxtur í Evrópulöndunum verða að meðaltali um eitt prósent á ári fram að miðri þessari öld, en yfir 2 prósent í Bandaríkjunum og að minnsta kosti 2,5 prósent í Kína. Í skýrslu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók saman nýlega segir ennfremur, að í það stefni að opinberar skuldir í aðildarríkjunum vaxi úr 63 prósentum af vergri landsframleiðslu nú í um 200 prósent árið 2050, ef stjórnvöld grípa ekki tafarlaust til agðerða til að sporna við fjárlagahalla og draga úr ríkisábyrgðum á eftirlauna- og velferðakerfum aðildarríkjanna. Í Rússlandi og Japan er útlitið enn svartara. Íbúafjöldi Japans er nú sagður hafa náð hámarki, 127 milljónum, og muni lækka undir 100 milljónir fyrir miðja öldina. Þetta þýðir 30 milljónum færri vinnufæra borgara á sama tíma og fjöldi fólks á eftirlaunaaldri nærri því tvöfaldast. Í Rússlandi fækkar íbúum nú um 700.000 á ári. Opinberar mannfjöldaspár gera ráð fyrir að Rússar verði einhvers staðar á bilinu 80 til 100 milljónir um miðja öldina, en þeir eru um 146 milljónir nú. Í niðurstöðu frönsku skýrslunnar sem vitnað er til hér að framan er sú ályktun dregin að Evrópa stefni hægt, en óafstýranlega að feigðarósi. Eflaust er þetta óþarflega svört lýsing, og aldrei að vita nema Evrópumenn eigi eftir að taka við sér í barneignum. En þessar mannfjöldaspár eru þörf áminning um að ekkert samfélag á sér bjarta framtíð nema það viðhaldi heilbrigðri frjósemi. Að þessu leytinu hefur Nýi heimurinn ótvírætt forskot á þann gamla.