Viðskipti innlent

Stóðust próf FME

Regluvarsla hjá bæði Marel og Atlantic Petroleum er almennt í lagi samkvæmt reglubundinni úttekt Fjármálaeftirlitsins á framkvæmd reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherhja.

Þó er í úttektunum bent á einhver atriði sem betur mættu fara, svo sem vöntun á að listar með yfirliti yfir tímabundna innherja hafi verið sendir eftirlitinu eða að ekki hafi verið staðið að slíkum sendingum með fullnægjandi hætti. Hjá fyrirtækjunum er þó sagður bæði metnaður og vilji til að framkvæmd reglna sé eins og best verði á kosið.

Fjármálaeftirlitið segir megintilgang úttekta sem þessara fyrirbyggjandi eftirlit og aukinn trúverðugleika félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Um leið er lögð áhersla á að fræða félögin um hvernig haga beri innherjaviðskiptum og meðferð innherjaupplýsinga og koma þannig í veg fyrir misnotkun þeirra, en hlutverk regluvarða er að hafa umsjón með því að þessum reglum sé framfylgt af hálfu félagsins.

Birting á niðurstöðum úttektanna er hluti af gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins sem meðal annars kveður á um að FME birti upplýsingar einstakra athugana á heimasíðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×