Fastir pennar

Sigurstranglegur listi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi skilaði sigurstranglegum lista. Geir H. Haarde fékk afdráttarlausa traustsyfirlýsingu. Hann hefur staðið sig vel og lagað flokkinn átakalaust að nýjum aðstæðum. Hver maður hefur sinn stíl og hver tími sinn mann.

Geir er maður tímans. Margir hefðu (eins og Geir sjálfur) viljað sjá Björn Bjarnason við hlið hans, í öðru sæti, en Björn hlaut þó svipað fylgi og áður í prófkjörum. Hann er einn öflugasti ráðherrann, fylginn sér og fastur fyrir. Hann hefur verið manna áhugasamastur um hugmyndir og ódeigur við að svara andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa þess vegna einbeitt sér að árásum á hann. Það var mjög miður, að nokkrir ungir sjálfstæðismenn skyldu leggja þeim lið í miðri prófkjörsbaráttu með fávíslegri ályktun um öryggismál, sem auðvitað beindist gegn Birni. Þessir ungu menn köstuðu að vísu svo til höndum, að þeir urðu strax að senda frá sér leiðréttingu við ályktunina.

Ályktunin gegn Birni var samin í því fjölmiðlafári, sem varð eftir oftúlkun Stöðvar tvö á ummælum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um öryggisþjónustu lögreglunnar í kalda stríðinu. Í nýlegri Morgunblaðsgrein leiðréttir Guðni þessa oftúlkun skilmerkilega, eins og sönnum fræðimanni sæmir. Hann hafði sagt á Stöð tvö, að líklega hefði framsóknarmaðurinn Ólafur Jóhannesson ekki vitað í dómsmálaráðherratíð sinni af öryggisþjónustunni.

Nú tekur Guðni undir það, sem dr. Þór Whitehead prófessor hafði áður haldið fram um vitneskju Ólafs, og kveðst sjálfur hafa frekari heimildir um þetta frá 1971-1974. Þór hefur líka lagt fram gögn um, að framsóknarmaðurinn Steingrímur Hermannsson hafi komið að öryggismálum. Þetta var því engin „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins", heldur veikburða tilraun til að tryggja öryggi Íslands í kalda stríðinu. Auðvelt er að gleyma því á okkar sælu friðartíð, að þá starfaði hér hópur, sem tók við fyrirmælum frá Moskvu, þáði þaðan stórfellda fjárhagsaðstoð, hlaut þjálfun í vopnaburði og byltingarfræðum og skirrðist ekki við að beita ofbeldi. Jafnframt þurfti að fylgjast svo sem auðið var með njósnum úr sendiráði Ráðstjórnarríkjanna.

Í upphafi kalda stríðsins beindist heift róttæklinga aðallega að tveimur mönnum, Stefáni Jóhanni Stefánssyni, formanni Alþýðuflokksins, og Bjarna Benediktssyni, varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Margir Alþýðuflokksmenn buguðust andlega. Þeir leyfðu öðrum að velja sér forystumenn og veltu Stefáni Jóhanni úr formannsstóli. Sjálfstæðismenn brugðust öðru vísi við og fylktu sér um Bjarna Benediktsson. Því miður verður hið sama ekki sagt um ákafamennina ungu, sem ályktuðu á dögunum gegn Birni Bjarnasyni. Frá þeim var ekki að heyra sjálfstæða rödd, heldur bergmál frá andstæðingum flokksins, sem réðust harkalega á Björn fyrir að kynna tillögur frá öryggissérfræðingum Evrópusambandsins. Þótt Geir H. Haarde brygðist drengilega við Birni til varnar, varpaði ályktunin skugga á prófkjörið, sem heppnaðist að öðru leyti vel.

Guðlaugur Þór Þórðarson vann mestan sigur í þessu prófkjöri og hreppti annað sæti listans. Hann laðar fólk að sér og er vaskur í baráttu, eins og sást á málefnalegri, en harðri gagnrýni hans á framferði R-listans í Orkuveitu Reykjavíkur. Við hann eru miklar vonir bundnar. Tveir aðrir frambjóðendur náðu verulegum árangri. Guðfinna Bjarnadóttir er kappsöm kona og prýðilega menntuð og hefur getið sér orð sem forstöðumaður Háskólans í Reykjavík. Illugi Gunnarsson hefur ígrundaðar skoðanir og kann að rökstyðja þær. Fimm aðrir frambjóðendur skipa næstu sæti og eru líklegir þingmenn, þau Ásta Möller, Pétur Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen. Þau eru öll hin frambærilegustu. Fylgi Grazynu Okuniewsku er líka fagnaðarefni: Hún hefur valið að vera Íslendingur, ekki fæðst fyrirhafnarlaust til þess.

Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að endurnýja sig í Reykjavík, jafnframt því sem hann býr að langri reynslu þeirra Geirs og Björns. Það er ekki sami þreytublær á honum og Samfylkingunni og Vinstri-grænum, þar sem sama fólk tyggur sömu tuggur, ár eftir ár, áratug eftir áratug. Sjálfstæðisflokknum er óhætt að vera á miðjunni í komandi kosningum, því að miðjan í stjórnmálunum hefur færst langt til hægri.






×