Erlent

Friður ríkir en spenna er í loftinu

Flýja lögregluna Stuðningsmenn Bembas hlaupa undan lögreglunni en piltarnir höfðu verið að grýta steinum í bíla sem óku framhjá í Kinshasa, höfuðborg Kongó.
Flýja lögregluna Stuðningsmenn Bembas hlaupa undan lögreglunni en piltarnir höfðu verið að grýta steinum í bíla sem óku framhjá í Kinshasa, höfuðborg Kongó. MYND/AP

Ekki hefur komið til átaka í Afríkuríkinu Kongó eftir að Joseph Kabila forseti var á miðvikudaginn lýstur opinberlega sigurvegari í forsetakosningunum, sem haldnar voru í lok október.

Mótframbjóðandinn Jean-Pierre Bemba, einn af varaforsetum landsins, sagðist á fimmtudaginn einungis ætla að beita löglegum aðferðum til þess að fá úrslitum forsetakosninganna hnekkt. Þessi yfirlýsing vakti vonir um að hann ætli ekki að beita valdi, en hann ræður yfir eigin herliði sem skipað er hundruðum manna.

Á miðvikudaginn var því opinberlega lýst yfir að Joseph Kabila, núverandi forseti, hafi sigrað í seinni umferð forsetakosninganna, sem haldin var 29. október síðastliðinn.

Opinberar niðurstöður kosninganna eru þær, að Kabila hafi hlotið 58 prósent atkvæða en Bemba 42 prósent.

Stuðningsmenn Bemba segja þessar tölur ekki geta verið réttar. Bandalag um 50 flokka, sem studdu Bemba, létu gera eigin talningar og fengu út að Bemba hefði hlotið 52 prósent og hann væri þar með hinn rétti sigurvegari kosninganna.

Óttast var að óeirðir myndu brjótast út eftir að opinberu tölurnar voru birtar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×