Erlent

Svipti sig lífi eftir dráp á fjölskyldu sinni

Lögregla í Noregi telur sama manninn vera ábyrgan fyrir þremur morðum sem áttu sér stað í Vestfold fylki í Noregi í gær. Morðinginn tók líf sitt eftir að lögregla hafði tvívegis skotið hann í fótinn á flótta. Þetta kom fram á vef Aftenposten.

Um hádegi í gær stakk maðurinn fjórtán ára son sinn til bana á heimili hans í Nøtterøy og móðir drengsins og sambýlismaður hennar særðust alvarlega. Konan var stungin í höfuð, háls og bak, en maðurinn hlaut stungusár á andliti. Voru þau flutt á sjúkrahús.

Hinn grunaði, 38 ára gamall karlmaður, er einnig talinn ábyrgur fyrir morðum á 79 ára gömlum föður sínum og konu hans, en þau áttu sér stað stuttu áður í bænum Sandefjord.

Lögreglan elti manninn á bensínstöð eftir seinni árásina og reyndi að semja við hann, en þar hleypti hann af nokkrum skotum úr haglabyssu. Vitni sögðu manninn vera „kaldan og yfirvegaðan“. Þegar hann yfirgaf bensínstöðina hleypti lögregla af varúðarskotum en hæfði hann loks í fæturna á flótta. Í kjölfarið svipti maðurinn sig lífi á staðnum með haglabyssunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×