Erlent

Hefur ekki gerst í hálfa öld

Stór ísjaki hefur sést út af ströndum Nýja-Sjálands. Þegar nánar var að gætt kom í ljós að nokkrir aðrir stórir jakar eru á floti á svipuðum slóðum. Þetta þykja undur og stórmerki því ísjakar hafa ekki sést frá ströndum Nýja-Sjálands í meira en hálfa öld, eða allt frá árinu 1931.

Vísindamenn vinna nú hörðum höndum að því að komast að raun um hvaðan sá stóri er kominn. Vitað er að hann er kominn til Nýja-Sjálands frá Suðurskautslandinu, en vísindamönnunum leikur forvitni á að vita hvar á Suðurskautslandinu uppruna hans er að leita.

Á síðasta ári fréttist reyndar af ísjökum ekki langt frá Nýja-Sjálandi, en þeir hröktust fljótlega burt fyrir veðri og vindum og sáust aldrei frá ströndinni, eins og nú er raunin.

Stóri jakinn, sem nú er kominn á þessar slóðir, hefur sést frá Dunedin á Suðureyju Nýja-Sjálands.

Ísjakarnir eru orðnir fólki í ferðaþjónustunni tekjulind því ferðamenn borga allt upp í 500 nýsjálenska dali fyrir útsýnisflug yfir jakana. Sú upphæð mun nema rúmum 20 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×