Forráðamenn New Orleans/Oklahoma City Hornets-liðsins í NBA deildinni hafa nú tilkynnt að liðið muni spila þrjá heimaleiki í New Orleans í vor sökum þess hve vel uppbygging í borginni gengur eftir að fellibylurinn Katrín reið þar yfir á sínum tíma.
Lið Hornets hefur því spilað flesta heimaleiki sína í Oklahoma City í vetur, en nokkrir leikir hafa farið fram í Baton Rouge. "Ég hlakka sannarlega til að sjá liðið spila aftur á upprunalegum heimavelli sínum," sagði Paul Mott, forseti félagsins. "New Orleans hverfur ekki þrátt fyrir áföllin, heldur mun hún rísa á ný og verða sterkari en nokkru sinni fyrr."
Gárungarnir vilja þó meina að kannski sé það liðinu alls ekki til framdráttar að flytja á heimaslóðirnar á ný, því liðið hefur komið verulega á óvart í vetur og það er ekki síst að þakka frábærum heimavelli liðsins í Oklahoma City, sem hefur öllum að óvörum reynst hin mesta ljónagryfja. Liðið hefur meðal annars lagt meistara San Antonio að velli í höllinni og vann sterkt lið Miami örugglega fyrir nokkrum dögum.