Frakkinn Luc Alphand fór með sigur af hólmi í París-Dakar-rallýinu sem lauk í Senegal í morgun. Alphand ók á Mitsubishi Prototype og var forysta hans 17.53 mínútur á Suður-Afríkumanninn Giniel de Villiers og Tina Thörner frá Svíþjóð sem urðu í 2. sæti en þau óku á Volkswagen Touareg.
Spánverjinn Nani Roma varð þriðji á Mitsubishi Pajero og sigurvegarinn frá því í fyrra, Frakkinn Stephane Peterhansel varð fjórði á Pajero.
Spánverjinn Marc Coma sigraði í bifhjólaflokki, Frakkinn Cyril Despres varð annar og Ítalinn Giovanni Sala í þriðja sæti. Keppninni í ár verður fyrst og fremst minnst fyrir þrjú dauðsföll. Tveir ungir drengir, 10 og 12 ára létust um helgina þegar þeir urðu fyrir bílum og í vikunni lést þátttakandi á bifhjóli sínu.