Innlent

Málþing á Kjarvalsstöðum

Málþing um list Kjarvals, stöðu hans og áhrif verður haldið á Kjarvalsstöðum næstkomandi laugardag og er það tvískipt. Fyrri hlutinn fjallar um áhrif Kjarvals á samtíma sinn en seinni hlutinn um rannsóknir sem Kristín Guðnadóttir hefur gert á ferli listamannsins.

Í tilkynningu sem Ólöf Kristín Sigurðardóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur segir:

"Listasafn Reykjavíkur gengst fyrir málþingi á Kjarvalsstöðum næstkomandi laugardag kl. 11 - 14. Fjallað verður um list Kjarvals, stöðu hans og áhrif á íslenska myndlist og menningarsögu. Frummælendur eru þau Kristín Guðnadóttir listfræðingur, Eiríkur Þorláksson listfræðingur, Einar Garibaldi Eiríksson myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands, Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur og Erling Klingenberg myndlistarmaður.

Málþingið verður tvískip og fjallar fyrrihlutinn um listrænan feril Kjarvals og áhrif hans á samtíma sinn. Þá talar Kristín Guðnadóttir sem unnið hefur ítalegar rannsóknir á feril Kjarvals og er ásamt Eiríki Þorlákssyni sýnigarstjóri viðamikillar sýnigar á verkum Kjarvals sem nú stendur á Kjarvalsstöðum. Þau eru einnig á meðal höfunda nýútkominnar bókar um Kjarval.

Á síðari hluta málþingsins verður sjónum beint að áhrifum Kjarvals í nútímanum og þeirri ímynd sem sköpuð hefur verið um listamanninn og minningu hans. Erindi Jóns Karls Helgasonar ber yfirskriftina Maður með hatt og fjallar hann um listamanninn og þá táknmynd sem hann er í samtímanum. Myndlistarmennirnir Einar Garibaldi og Erling Klingenberg hafa í verkum sínum, báðir sótt í list Kjarvals og þá umgjörð sem sagan hefur búið honum. Stjórnandi málþingsins er Ólöf Kristín Sigurðardóttir "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×