Brasilíski framherjinn Ronaldo hjá Real Madrid hefur látið í veðri vaka að hann fari frá félaginu í sumar því honum finnist stuðningsmenn liðsins aldrei hafa tekið sér opnum örmum.
"Stuðningsmenn Real Madrid hafa aldrei tekið mér opnum örmum og ég tek það með í reikninginn þegar ég tek ákvörðun um framhaldið. Ég vil spila þar sem stuðningsmennirnir elska mig og mér hefur aldrei fundist stuðningsmenn Real taka mér þannig. Ég vil ekki spila þar sem ég er ekki metinn að verðleikum og því mun ég skoða mín mál vandlega eftir HM í sumar," sagði Ronaldo.
"Við þurfum stuðningsmenn sem styðja okkur hvað sem á dynur, en stuðningsmenn okkar eru farnir að flauta á okkur um leið og við gerum mistök. Ég veit að stuðningsmenn liðsins munu ef til vill bregðast illa við því sem ég er að segja, en satt best að segja er mér alveg sama."