Innlent

Alþingiskonur flytja Píkusögur í tilefni V-dagsins

MYND/Heiða

Ekki fer mörgum sögum af því að kynfæri kvenna hafi mikið borið á góma í sölum Alþingis. Á þessu varð hins vegar breyting í dag þegar kynnt var fyrirhuguð uppsetning þingkvenna á leikritinu Píkusögum í tilefni V-dagsins.

V-dagurinn svokallaði hefur verið haldinn árlega hér á landi undanfarin ár en hin alþjóðlegu V-dagssamtök voru stofnuð fyrir átta árum til að reyna að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim. Stofnun samtakanna kom til í tengslum við frumsýningar leikritsins Píkusögur sem sýnt var við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu fyrir örfáum árum. Höfundurinn, Eve Ensler, byggði verkið á viðtölum við tvö hundruð konur en hún kom hingað til lands á V-deginum í fyrra. Í leikritinu upphefur Eve kynferði og styrk kvenna neð húmor og einlægni, ásamt því að minna á það ofbeldi sem konur heimsins verða fyrir á hverjum degi.

Í tilefni dagsins í ár þann 1. mars næstkomandi munu þingkonur landsins flytja verkið á stóra sviði Borgarleikhússins og ekki var annað að heyra á þeim í dag þegar sýningin var kynnt fjölmiðlum en að þær væru fullar tilhlökkunar. V-dagssamtökin segjast óendanlega þakklát fyrir velviljann og hugrekkið sem þingkonurnar sýni með því að taka þátt í þessu dýrmæta verkefni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×