Óheppni NBA-liðs Houston Rockets hefur ekki riðið við einteyming í vetur og í nótt fótbrotnaði kínverski risinn Yao Ming í leik gegn Utah Jazz. Framherjinn Andrei Kirilenko steig ofan á fótinn á Ming með þeim afleiðingum að bein brákaðist í vinstri fæti hans og er hann því úr leik það sem eftir lifir tímabils. Þetta kórónar mikið meiðslatímabil hjá liðinu, því burðarásar liðsins Ming og Tracy McGrady hafa verið meiddir meira og minna í allan vetur og liðið fjarri því að komast í úrslitakeppnina.
