Innlent

Vilja ekki stækkun álversins

Vinstri-grænir eru andvígir stækkun álversins en setja sig ekki upp á móti álverinu í núverandi mynd.
Vinstri-grænir eru andvígir stækkun álversins en setja sig ekki upp á móti álverinu í núverandi mynd. MYND/Vilhelm
Vinstri-grænir í Hafnarfirði eru andvígir stækkun álversins í Straumsvík og hyggjast beita sér gegn henni í bæjarstjórn nái þeir til þess kjöri. Þeir vilja auk þess auka vægi íbúa Hafnarfjarðar í ákvarðanatöku um mál sem snerta þá.

Vinstri-grænir í Hafnarfirði kynntu kosningastefnuskrá sína í Straumi í Straumsvík, í næsta nágrenni við álver Alcan. Eitt helsta áherslumál Vinstri-grænna í kosningabaráttunni og það sem þeir telja að skilji þá helst frá hinum flokkunum er andstaða við stækkun álversins.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri-grænna í Hafnarfirði, segir að sér og flokkssystkinum sínum hugnist ekki að fjórða stærsta álver Evrópu verði að veruleika í túngarðinum hjá Hafnarfirði. Þau óttast mikla mengun frá álverinu og hugnast ekki sú stóriðjustefna sem er rekin hérlendis.

Vinstri-grænir leggja jafnframt áherslu á að aðkoma borgaranna að stjórnsýslunni verði efld. Þeir vilja meðal annars að fulltrúar einstakra hópa fái formlegri hlutdeild og aukin áhrif á ákvarðanatöku.

Meðal annarra mála sem Vinstri-grænir tala fyrir er uppbygging og markaðssetning Hafnarfjarðar fyrir ferðaþjónustu, efling grunnskólans og íþrótta- og félagsstarfs auk þess að stórauka hlut almenningssamgangna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×