Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í Kópavogi náðu undir miðnætti samkomulagi um að halda meirihluta samstarfi sínu áfram í bæjarstjórn.
Gunnar Birgisson verður áfram bæjarstjóri og Ómar Stefánsson forseti bæjarráðs. Málefnasamningur verður lagður fyrir fulltrúaráð flokkanna á miðvikudag. Búist er við að það skýrist í dag hvort Sjálfsæðisflokkurinn og Frjálslyndir myndi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ef ekki verður af því reikna kunnugir með þvi að Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarmenn muni ræða við Frjálslynda um meirihlutamyndun, en ekki er loku fyrir það skotið að fulltrúi Framsóknarflokks gangi til liðs við Sjálfstæðismenn, ef þeir ná ekki samkomulagi við Frjálslynda. Á Akureyri eiga Framsóknarmenn, Samfylkingin og Vinstri grænir í viðræðum um myndun meirihluta og sömu flokkar eiga í viðræðum í Árborg en þar unnu sjálfstæðismenn mikið á í kosningunum. Búist er við að nokkrar nýjar bæjarstjórnir líti dagsins ljós fyrir kvöldið.