Erlent

Viðbrögð Írana varfærin

Íranar eru reiðubúnir til viðræðna við Bandaríkjamenn um kjarnorkumál en segja þó að ekki komi til greina að hætta auðgun úrans. Fulltrúar sex af voldugustu ríkjum veraldar sátu á rökstólum í dag og skeggræddu horfurnar.

Óvænt útspil Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær um að stjórnvöld í Washington væru reiðubúin til fyrstu formlegu samskiptanna við ráðsherranna í Teheran frá því fyrir klerkabyltinguna 1979 hafa aukið bjartsýni um að kjarnorkudeiluna við Írana megi leysa eftir diplómatískum leiðum. Viðbrögð Írana hafa verið varfærnisleg, þeir segjast klárir í viðræður en einungis með því skilyrði að þeir geti haldið áfram úranvinnslu. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að ef Íranar héldu þessu til streitu yrðu þeir beittir refsiaðgerðum.

Utanríkisráðherrar ríkjanna fimm sem eiga fast sæti í öryggisráðinu, auk þýsks starfsbróður þeirra, hittust í Vínarborg í dag, og ræddu stöðuna. Búist er við að þeir ákveði að bjóða Írönum margvíslega aðstoð skipti þeir um skoðun en sitji þeir áfram við sinn keip er talið líklegt að gripið verði til efnahagsþvingana. Rússar og Kínverjar hafa hingað til lagst gegn slíkum aðgerðum en stjórnmálaskýrendur grunar að Bandaríkjamenn hafi gert við þá samkomulega um að samþykkja harðorða ályktun standi Íranar fast á sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×