Erlent

Ásakanir um fleiri fjöldamorð

Nýjar ásakanir eru komnar fram um að bandarískir hermenn hafi myrt íraska borgara með köldu blóði, að þessu sinni í bænum Ishaqi í mars síðastliðnum, þar sem ellefu manns lágu í valnum. Fyrrverandi yfirmaður Abu Ghraib-fangelsisins dregur í efa að fjöldamorðin þar og í Haditha séu einsdæmi.

Fjöldamorðin sem framin voru í bænum Haditha í Írak í nóvember á síðasta ári hafa hvarvetna vakið óhug og reiði. Flest virðist benda til að þar hafi bandarískir landgönguliðar myrt í hefndarskyni tvær tylftir saklauss fólks, þar á meðal börn og gamalmenni. Nú eru komnar fram nýjar ásakanir um að bandarískir hermenn hafi í mars síðastliðnum framið jafn hroðalegan glæp annars staðar í landinu, í smábænum Ishaqi skammt norður af Bagdad. Á sínum tíma gáfu Bandaríkjamenn þær skýringar að í húsinu hefðu verið menn sem viðriðnir væru starfsemi al-Kaída og því hefði komið til átaka sem lyktaði með því að loftárás var gerð á húsið. Írakar segja hins vegar að innandyra hafi að mestu verið konur og börn.

Írösk stjórnvöld hafa sjálf hafið rannsókn á morðunum í Haditha og Bandaríkjaher tilkynnti í gær að hermenn myndu eftirleiðis fá sérstaka kennslu í siðfræði. Þótt ráðamenn hafi fordæmt ofbeldið og heitið hörðum refsingum hlýtur sú spurning að vakna hvort einungis óbreyttir hermenn beri á því ábyrgð. Í Ishaqi voru herþotur notaðar til að eyðileggja hús og íbúar Haditha staðhæfa að það hafi líka verið gert þar en til þess þarf skipun frá yfirmönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×