Erlent

Bóluefni gegn leghálskrabbameini á markað

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa heimilað notkun fyrsta bóluefnisins gegn algengustu tegundum leghálskrabbameins. Bóluefnið gæti bjargað lífi milljóna kvenna um allan heim. Fjöldi íslenskra kvenna hefur tekið þátt í rannsóknum á bóluefninu.

Árlega látast um þrjú hundruð þúsund konur í heiminum af völdum leghálskrabbameins. Leghálskrabbamein er ólíkt öðrum krabbameinum að því leyti að það er veirusmit og berst veiran milli kynja við samfarir.

Það er lyfjafyrirtækið Merck sem hefur þróað lyfið og framleiðir það. Bóluefnið ber heitið Gardasil og er gert fyrir konur á aldrinum níu til tuttugu og sex ára. Bóluefnið virkar á nokkra veirustofna en þessir tilteknu veirustofnar valda yfir sjötíu prósent leghálskrabbameina. Lyfið virkar einnig gegn sýkingum sem orsaka um 90% kynfæravartna.

Árlega greinast 15 til 18 konur með leghálskrabbamein á Íslandi og hátt í 1500 hundruð konur með forstigsbreytingar. Nokkur hundruð íslenskar konur hafa tekið þátt í rannsókn á lyfinu hjá HPV rannsóknarsetrinu og var helmingur þeirra bólusettur en hinar fengu lyfleysu. Stærsta rannsóknarsetrið vegna lyfsins hefur verið hér á landi.

Talið er líklegt að flest lönd sem efni hafa á því muni bólusetja ungar stúlkur gegn leghálskrabbameini en rannsóknir hafa sýnt að það virkar best á stúlkur á aldrinum 10-13 ára. Hver skammtur af lyfinu verður seldur á um níu þúsund krónur í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×