Erlent

Albert varð ekki að fellibyl

Óveðursárið 2005 er Bandaríkjamönnum í fersku minni enda var tjón af völdum fellibylja þá meira en dæmi eru um. Því er ekki að undra að íbúar Flórída hafi haft varann á þegar hitabeltislægðin Albert tók að dýpka svo um munaði fyrir nokkrum dögum. Í gær var vindhraðinn víða kominn upp í 32 metra á sekúndu, sem jafngildir ofsaveðri, og engu líkara var að allar flóðgáttir himins hefðu opnast, svo mikil var rigningin. Því sá Jeb Bush ríkisstjóri sér þann kost vænstan að lýsa yfir neyðarástandi.

16.000 heimili voru rafmagnslaus í nótt og nokkur hundruð manns leituðu skjóls í sérstökum neyðarskýlum. Ekki virtust þó allir Flórídabúar ætla taka mark á ríkisstjóranum sínum. Nokkrir brugðu sér í gönguferð í rokinu og rigningunni og jafnvel voru dæmi um fólk sem ætluðu að nota tækifærið til sjóbaða.

Þegar eldaði af degi var nokkuð tekið að draga af Alberti og þar með ljóst að hann myndi sem betur fer ekki ná styrk fellibyls heldur einungis verða hressileg hitabeltislægð. Hættan er þó ekki liðin hjá því veðurfræðingar gera ráð fyrir að í það minnsta sextán fellibyljir muni myndast á þessum slóðum á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×