Aganefnd NBA-deildarinnar hefur úrskurðað skotbakvörðinn Jerry Stackhouse hjá Dallas í eins leiks bann fyrir óíþróttamannslega villu hans á Shaquille O´Neal í fjórða leik liðanna í gærkvöldi. Þetta þýðir að Stackhouse mun missa af fimmta leik liðanna í Miami á sunnudagskvöld.
Brot Stackhouse á O´Neal í fjórða leiknum var nokkuð verklegt, en að hann skuli vera dæmdur í eins leiks bann fyrir það er til marks um mikið hertar agareglur í deildinni. Þetta leikbann er mjög alvarleg tíðindi fyrir lið Dallas, sem er að missa öll tök á einvíginu eftir að hafa komist yfir 2-0.
Stackhouse er stigahæsti varamaður liðsins með um 13 stig að meðaltali í úrslitunum og hefur verið lykilmaður þess í stigaskorun í allan vetur. Hann er þriðji leikmaður Dallas sem fær leikbann í úrslitakeppninni.
Fimmti leikurinn verður á sunnudagskvöldið og verður í beinni á Sýn eins og restin af einvíginu.