Lífið

Söguganga um Oddeyrina á Akureyri

Árleg söguganga um elsta hluta Oddeyrar verður farin laugardaginn 15. júlí. Lagt verður af stað frá Gránufélagshúsunum kl. 14. Oddeyrin er ein sandeyranna sem Akureyri byggðist á í upphafi. Hún er mynduð af framburði Glerár sem áður fyrr átti farveg til sjávar suður í Hofsbótina.

Fyrstu heimildir um mannaferðir á Oddeyri eru í Vígaglúmssögu, og í Sturlungu. Á Oddeyri fóru fram opinberar samkomur á miðöldum og þar var sjálfkjörinn samkomustaður á 19. öldinni. Fyrstu húsin risu á Oddeyri árið 1858 og upp úr 1870 fór Gránufélagið að byggja upp hús sín sem enn standa og eru friðuð samkvæmt húsafriðunarlögum. Um aldamótin 1900 var gatnakerfið á syðri hluta Oddeyrar komið, Strandgatan og flestar hliðargötur út frá henni. Á þessu svæði er að finna samfellda timburhúsabyggð með sýnishornum af ýmsu tagi. Þar eru tvílyft hús byggð undir áhrifum af Schweizerstíl, og lágreist, margviðbyggð hús, en einnig eru elstu steinsteyptu húsin á Akureyri á sunnanverðri Oddeyri. Margskonar atvinnustarfsemi hefur verið á Eyrinni, fiskvinnsla, matvælaiðnaður og þjónusta, og þar hafa komið við sögu nokkrir vel þekktir einstaklingar úr sögu Akureyrar.

Í göngunni verður sagan rifjuð upp, og gömlum Eyrarbúum er velkomið að leggja orð í belg. Ekkert þátttökugjald er í gönguna sem tekur um tvo tíma og hentar öllum. Leiðsögn verður á íslensku






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.