Lífið

Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju

Sigrún Magna leikur á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á fimmtudag
Sigrún Magna leikur á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á fimmtudag

Fimmtudaginn 27. júlí leikur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir á hádegistónleikum á vegum Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju sem hefjast kl. 12.

Sigrún stundaði nám við Tónskóla þjóðkirkjunnar, hefur verið organisti Breiðholtskirkju og Bessastaðakirkju en er núna í framhaldsnámi við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem Bine Bryndorf er aðalkennari hennar, en Bine er einmitt gestur tónleikaraðarinnar núna um helgina.

Á efniskrá Sigrúnar eru þrjú verk. Fyrst leikur hún tvö verk frá barroktímabilinu; Prelúdíu og fúgu í C-dúr eftir Georg Böhm og sálmforleikinn Allein Gott in der Höh sei Ehr eftir J. S. Bach. Síðast á efnisskránni er 2. og 4. kafli úr Sónötu nr. 1 eftir Paul Hindemith.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir fæddist við Mývatn og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Á sama tíma hóf hún nám í orgelleik hjá Birni Steinari Sólbergssyni á Akureyri. Hún stundaði síðar kirkjutónlistarnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem orgelkennarar hennar voru Hörður Áskelsson og Kári Þormar. Hún útskrifaðist með kantorspróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 2000 og einleikarapróf frá sama skóla árið 2003. Frá hausti 2005 hefur Sigrún stundað nám við kirkjutónlistardeild Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá Bine Bryndorf. Hún hefur einnig sótt námskeið bæði heima og erlendis hjá Hans-Ola Ericsson, Mathias Wager, Daniel Roth, Jon Laukvik, Michel Bouvard og fleirum. Sigrún hefur starfað sem organisti í Breiðholtskirkju og Bessastaðakirkju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.