Erlent

Þrír handteknir grunaðir um að hlera bresku konungsfjölskylduna

Breska lögreglan hefur handtekið þrjá menn, þar af einn blaðamann, vegna gruns um að þeir hafi hlerað síma konungsfjölskyldunnar. Málið er litið alvarlegum augum enda er ekki útilokað að það teygi anga sína víðar.

Rannsókn Scotland Yard hefur raunar staðið yfir í nokkra mánuði en hún hófst eftir að grunur vaknaði hjá starfsfólk Karls Bretaprins um að farsímar þeirra Camillu Parker-Bowles væru hleraðir eða að tölvuþrjótum hefði með einhverjum hætti tekist að komast í talhólf á símum þeirra hjóna. Í gær lét lögreglan svo til skarar skríða og handtók þrjá menn í tengslum við hleranirnar, þar á meðal Clive Goodman, sérfræðing götublaðsins News of the World í málefnum konungsfjölskyldunnar.

Þetta eru alls ekki einu dæmin um brotalamir í öryggisgæslu konungsfjölskyldunnar. Árið 2004 fékk blaðmaður Daily Mirror vinnu sem dyravörður í Buckingham-höll og nokkrum mánuðum síðar klifraði maður úr þrýstihópi feðra án forræðis upp á svalir hallarinnar íklæddur Batman-búningi. Gjörningalistamanni tókst ári áður að svindla sér inn í afmælisveislu Vilhjálms prins og fyrir tæpum aldarfjórðungi vaknaði drottningin við að ókunnur maður sat á rúmstokki hennar. Við þetta bætast svo símahleranir og sitt hvað fleira. Málið er því litið alvarlegum augum og til marks um það má nefna að sú deild Scotland Yard sem fer með varnir gegn hryðjuverkum fer nú með rannsókn þess. Hún beinist nú að því hvort fleiri símar hafi verið hleraðir, meðal annars hjá þingmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×