Lífið

Björgvin í Laugardalshöllina

Án efa verður um magnaðan tónlistarviðburð að ræða í höllinni 23. september nk. og ógleymanlega kvöldstund fyrir þá heppnu sem ná að tryggja sér miða í tæka tíð.
Án efa verður um magnaðan tónlistarviðburð að ræða í höllinni 23. september nk. og ógleymanlega kvöldstund fyrir þá heppnu sem ná að tryggja sér miða í tæka tíð.

Laugardaginn 23. september kl. 20:00 verður efnt til sannkallaðra stórtónleika í Laugardalshöll þar sem Björgvin Halldórsson flytur úrval laga úr efnisskrá sinni ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fóstbræðrum, Hljómsveit Björgvins, bakröddum og nokkrum landsþekktum gestum. Sérstaklega verður vandað til tónleikanna á allan hátt og má telja líklegt að um verði að ræða einu umfangsmestu tónleika sem ráðist hefur verið út í hérlendis með íslenskum listamanni. Án efa verður um magnaðan tónlistarviðburð að ræða og ógleymanlega kvöldstund fyrir þá heppnu sem ná að tryggja sér miða í tæka tíð.

 

Mikið einvala lið listamanna kemur að tónleikunum. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson, Þórir Baldursson útsetur fyrir hljómsveit og kór og Hrafnkell Orri Egilsson útsetur forleik tónleikanna sem byggður er á lögum eftir Björgvin. Hrynsveit Björgvins, sem leikur ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, skipa þeir Benedikt Brynleifsson, Róbert Þórhallsson, Þórir Baldursson, Þórir Úlfarsson, Vilhjálmur Guðjónsson, Matthías Stefánsson og Tatu Kantoma. Bakraddir skipa þau Friðrik Ómar, Regína Ósk, Eyjólfur Kristjánsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Gestir Björgvins verða meðal annars börn hans, Svala og Krummi, ásamt fleirum. Fjölmargir aðrir koma að undirbúningi tónleikanna og má búast við að vel á annað hundrað manns taki þátt í þeim á einna eða annan hátt.

Miðasalan hefst fimmtudaginn 24. ágúst kl. 10:00. Laugardalshöllinni hefur verið skipt upp í tvö verðsvæði, sal og stúku, aðeins verður selt í númeruð sæti og um mjög takmarkað miðaframboð að ræða. Nánar verður tilKynnt um miðasölu innan skamms, en það skal tekið fram að aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða og því vissara fyrir áhugasama að tryggja sér miða strax.

Þeir sem hafa fylgst með einstökum söngferli Björgvins Halldórssonar, allt frá því að hann var kosinn poppstjarna Íslands í Laugardalshöll í september 1969, telja það löngu tímabært - og um leið skemmtilega tilviljun - að hann stigi aftur á það sama svið í Höllinni og nú í fylgd með Sinfóníunni og mörgun fremstu tónlistarmönnum landsins.

 

Frá því undraverða ári 1969, þegar síðhærð ungmenni flykktust til Woodstock og maðurinn steig fæti fyrst á Tunglið, hefur Björgvin Halldórsson unnið að tónlist sinni af þeim metnaði og elju sem einkennir þennan ástríðufulla dugnaðarfork úr Hafnarfirði. Hann hefur staðið í farbroddi í íslenskri dægurtónlist, ekki aðeins sem afkastamikill söngvari á meira en 500 hljóðritunum, heldur einnig sem lagahöfundur, upptökustjóri og hljómplötuframleiðandi.

 

Björgvin Halldórsson er löngu orðinn þjóðsagnapersóna fyrir snaggaralegar athugasemdir sínar um menn og málefni, hann er hafsjór af fróðleik um tónlist frá öllum tímum, hann er mikill náttúruunnandi og lífskúnstner, en fyrst og fremst er hann fagmaður í tónlist. Björgvin hefur fyrir löngu skipað sér á bekk með fremstu tónlistarmönnum okkar og hann hefur haft afgerandi áhrif á samtíð sína og þann stóra hóp tónlistarfólks sem hefur unnið með honum í gegn um árin.

Bakhjarl tónleikanna er Alcan í Straumsvík í tilefni af 40 ára afmæli ISAL.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×