Innlent

Stríðinu ekki lokið

Bretar munu líklega búa við langvarandi og alvarlega hryðjuverkaógn að sögn innanríkisráðherranum. Hann segir að þó orrustan hafi líklega unnist þá sé stríðið ekki á enda.

John Reid, innanríkisráðherra tilkynnti á blaðamannafundi í dag að viðbúnaðarstig yrði ekki lækkað á breskum flugvöllum um sinn. Þó að leyniþjónustan vissi ekki um neina yfirvofandi árás þá væri ekki hægt að ábyrgjast að það yrði ekki gerð árás.

Reid staðfesti einnig fullyrðingar lögreglu um að komið hefði verið í veg fyrir fjórar hryðjuverkaárásir frá því gerðar voru sprengjuárásir á London í júlí í fyrra og bætti því við að lögreglan rannsakaði núna 24 mál þar sem hryðjuverk eða fyrirætlanir þar um koma við sögu.

Nýjar öryggisreglur setja allt á annan endann á breskum flugvöllum í dag. British Airways hefur aflýst þriðjungi allra fluga frá Heathrow-flugvelli og 20 frá Gatwick og Ryanair hefur aflýst 30 flugum frá Stanstead. British Airways hefur gagnrýnt Bresku flugvallasamtökin sem reka alla Lundúnaflugvellina fyrir að kalla ekki til fleira starfsfólk til að mæta tímafrekara öryggiseftirliti en samtökin segjast hreinlega ekki hafa tök á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×