Verslunin Office One var oftast með lægsta verðið á kennslu- og orðabókum, í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.
Af 33 titlum var Office One með lægsta verðið í 21 tilviki. Verðmunur á milli verslana fór allt upp í 125 prósent og hæsta verð var oftast í bókabúðinni Iðnú við Brautarholt. Þar var verðið hæst í 17 tilvikum af þrjátíu og þremur. Algengt var að verðmunur væri 30 til 40 prósent þannig að verulegum upphæðum nemur, ef kaupa þarf margar skólabækur fyrir veturinn.