Lífið

Reykholtskirkja hin eldri

Hin gamla Reykholtskirkja verður framvegis opin almenningi.
Hin gamla Reykholtskirkja verður framvegis opin almenningi.

Í Reykholti í Borgarfirði eru tvær kirkjur. Bak við þá nýju þar sem guðsþjónustur eru núna leynist önnur eldri og minni kirkja sem byggð var árið 1886. Sunnudaginn 27. ágúst nk. opnar Þjóðminjasafn Íslands þessa fallegu gömlu timburkirkju fyrir almenning og gefst tækifæri til að skoða hana að innan sem utan.

Reykholtskirkja hin eldri þarfnaðist viðgerða þegar hún komst í vörslu Þjóðminjasafnsins árið 2001. Síðan þá hafa á vegum safnsins farið fram umfangsmiklar endurbætur á henni í samstarfi við Húsafriðunarnefnd ríkisins. Kirkjan hefur auk þess verið búin ýmsum viðeigandi kirkjugripum.

Einnig eru til sýnis fornminjar sem fundust undir kirkjugólfi og voru rannsakaðar á vegum Fornleifaverndar ríkisins.

Í tilefni opnunarinnar stendur Snorrastofa fyrir sérstakri dagskrá í Reykholti sem hefst kl. 14:00 með messu í nýju kirkjunni. Kl. 15:00 verða veitingar í safnaðarsal kirkjunnar. Kl. 15:30 flytur Guðrún Sveinbjarnardóttir, stjórnandi fornleifarannsóknanna í Reykholti, fyrirlestur um eldri kirkjur og segir frá minjasvæðinu sunnan megin í kirkjugarðinum. Áður stóðu kirkjurnar nokkru sunnar en gamla kirkjan nú og hefur Þjóðminjasafnið á undanförnum árum staðið fyrir fornleifarannsókn á þeim og kirkjugarðinum. Kl. 16:30 opnar svo Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður Reykholtskirkju hina eldri formlega og viðstaddur verður einnig Magnús Skúlason forstöðumaður Húsafriðunarnefndar.

Allir eru velkomnir og hin gamla Reykholtskirkja verður framvegis opin almenningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×