Lífið

Inntökupróf á mánudaginn

Drengjakór Reykjavíkur er að hefja sitt 17. starfsár.
Drengjakór Reykjavíkur er að hefja sitt 17. starfsár.

Drengjakór Reykjavíkur er að hefja 17. starfsár sitt. Í kórnum eru um 40 drengir á aldrinum 8-13 ára. Við kórinn starfar einnig yngri deild fyrir 6 og 7 ára drengi. Stjórnandi kórsins er Friðrik S. Kristinsson sem jafnframt stjórnar Karlakór Reykjavíkur.

Kórinn æfir reglulega 2svar í viku á mánudögum og miðvikudögum kl. 17.00 - 18.45 í Hallgrímskirkju sem eru höfuðstöðvar kórsins. Syngja eins og englar, hegða sér eins og herrar og leika sér eins og strákar er lýsandi kjörorð drengjakórsins og gefur til kynna hið mikla uppeldislega gildi kórstarfsins. Margir fyrrverandi kórfélagar hafa haldið áfram tónlistarnámi sínu eftir að kórnum sleppir.

Raddprófun og inntaka nýrra kórfélaga í yngri og eldri deild fer fram í Hallgrímskirkju mánudaginn 4. september kl. 17-19. Allir áhugasamir og söngelskir drengir eru hvattir til að mæta.

Annað hvert ár fer kórinn í kórferðalag til útlanda. Síðast liðið vor fór kórinn í velheppnaða söngferð til Frakklands og að tveimur árum liðnum er stefnt að því að heimsækja Barcelona á Spáni. Í vetur eru m.a. fyrirhugaðar upptökur og útgáfa á geisladiski með söng drengjakórsins. Einnig eru á dagskránni jólatónleikar og vortónleikar auk þess sem kórinn syngur við messu í Hallgrímskirkju einn sunnudag í hverjum mánuði. Þá munu kórfélagar fá einstaklingsmiðaða raddþjálfun.

Öflugt foreldrafélag heldur utan um starfsemi kórsins í samvinnu við stjórnanda hans. Hornsteinninn í starfsemi kórsins hefur ávallt verið sá að foreldrar hafa verið mjög virkir þátttakendur í starfseminni.

Nánari upplýsingar um kórstarfið er að finna á heimasíðunni http://www.drengjakor.is

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×