Lífið

Höfðu ekki undan að taka á móti atkvæðum

MYND/Hrönn
Svo virðist sem þjóðin hafi brugðist við áeggjan Skjás eins og stuðningsmanna Magna Ásgeirssonar söngvara og kosið hann í gríð og erg í raunveruleikaþættinum Rock Star:Supernova í nótt. Svo mikill var atgangurinn að netþjónar höfðu ekki undan að taka á móti atkvæðum á tímabili.

Magni Ásgeirsson er einn sex keppenda sem berjast um það að verða söngvari rokksveitarinnar Supernova. Sem fyrr koma áhorfendur að vali á söngvaranum og í ljósi þess að Magni var meðal þriggja neðstu í síðustu tveimur þáttum voru landsmenn hvattir til að sofna ekki á verðinum og tryggja hann alla leið í úrslitaþáttinn sem er eftir tvær vikur. Það virðast þeir hafa gert því gríðarlegt álag var á bæði símkerfi og netþjóna í nótt þegar kosning hófst.

Öll SMS-skeyti komust til skila og að sögn Björns Sigurðssonar, dagskrárstjóra Skjás eins, sem sýnir þáttinn, en fjöldi þeirra var margfalt meiri en undanfarnar vikur. Erfiðara reyndist hins vegar að kjósa á Netinu fyrsta klukkutímann eftir að opnað var fyrir kosningu og var það vegna álags á netþjóna.

Íslendingar létu það ekki á sig fá og í morgun gengu tölvuskeyti manna á milli um að hægt væri að blekkja kosningakerfi þáttarins með því að stilla tölvuna yfir á havaískan tíma og kjósa þannig. Fjölmargir virðast hafa gert það í morgun en ekki er ljóst hvort þau atkvæði skiluðu sér.

Handfylli atkvæða réð því í síðustu viku að Magni Ásgeirsson varð meðal þriggja neðstu en það ræðst laust eftir miðnætti í kvöld hvort framlag Íslendinga dugar til að halda honum inni í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.