Innlent

Fara fram á aukafjárveitingu vegna mikils halla

Rúmlega 400 milljóna króna tap var á rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss á fyrstu sex mánuðum ársins. Spítalinn á fullt í fangi með að mæta aukinni eftirspurn en stjórnendur spítalans hafa farið fram á aukin fjárframlög frá heilbrigðisyfirvöldum.

Meginástæða hallan er óhagstæð gengisþróun og þensla í efnahagslífinu. Spítalinn kaupir rekstrarvöru fyrir rúma 5 milljarða á ári erlendis frá og á tímabilinu hefur dollarinn hækkað um rúm 17 prósent, evran um 24 prósent og pundið um rúm 20 prósent. Aukinn kostnaður vegna lyfjakaupa eingöngu var um 220 milljónir króna.

Þá hefur spítalinn ekki farið varhluta af því að mikil þensla er á vinnumarkaðnum og því hefur reynst erfitt að ráða í lausar stöður og til sumarafleysinga. Það hefur gert það að verkum að spítalinn hefur þurft að kaupa meiri yfirvinnu af starfsmönnum spítalans. Launakostnaður spítalans á tímabilinu var 400 milljónum umfram rekstraráætlun.

Á móti kemur að sértekjur spítalans voru rúmlega 10 prósent hærri en gert var ráð fyrir. Í rekstraráætlun spítalans var gert ráð fyrir óbreyttum rekstrarkostnaði sjöunda árið í röð og segir í greinagerð framkvæmdarstjóra fjárreiðna spítalans að það sé mjög erfitt að standast áætlunina þar sem mikil fjölgun hefur verið á komum á spítalans meðal annars vegna fjölgun íbúa landsins.

Í niðurlagi greinargerðarinnar segir framkvæmdarstjórinn að óhjákvæmilega hafi breytingar áhrif á reksturinn ef ekki eigi að koma til niðurskurðar á þjónustu. Spítalinn hefur farið fram á það við stjórnvöld að fá aukið fjármagn í reksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×