Innlent

Stjórnarandstaða lýsi yfir samstarfsvilja

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, telur að stjórnarandstöðuflokkarnir eigi að lýsa því yfir að þeir muni mynda velferðarríkisstjórn ef þeir fái fylgi til þess í komandi þingkosningum. Hann telur ekki aðeins mögulegt heldur líklegt að þeir nái saman ef þeir haldi rétt á spilunum.

Jón Baldvin var gestur á Fréttavaktinni á NFS í dag. Þar barst talið meðal annars að hugmyndum Steingríms J. Sigfússonar um að stjórnarandstöðuflokkarnir lýstu yfir vilja til samstarfs eftir þingkosningar í vor. Jón Baldvin sagðist aðspurður ekki telja að flokkarnir ættu að mynda kosningabandalag heldur lýsa því yfir að þeir vildu starfa saman fengju þeir til þess nægilegt fylgi í kosningunum.

Jón telur að þeir eigi að sameinast um fimm til sex meginmál, með aðaláherslu á eitt sem gnæfi yfir allt annað. Ísland sé að verða amerísk skrípamynd af ójöfnuði sem sé óþolandi og ef fólk fái almennlegt val um að losna við núverandi ríkisstjórn og fá velferðarsstjórn sem taki það alvarlega að vernda íslenska velferðarkerfið þá sigri stjórnarandstaðan.

Aðspurður hvort hann telji mögulegt að stjórnarandstöðuflokkarnir nái saman segir Jón það ekki aðeins mögulegt heldur líklegt ef þeir haldi rétt á spilunum. Mikilvægt sé að menn hafi stefnuna skýra og það komi ekki della út úr prófkjörunum heldur verði nauðsynleg endurnýjun þannig að forystulið flokka hafi verkhæft lið í kringum sig sem menn geti treyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×