Innlent

Segir sveitarfélög ekki tilbúin að greiða fyrir þjónustu Strætós

MYNd/Vilhelm

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður Strætó bs., hefur sent frá yfirlýsingu vegna ásakana um að hún hafi leynt bágri fjárhagsstöðu Strætós. Þar segir hún slæma fjárhagsstöðu Strætó bs. er tilkomna vegna þess að flest sveitarfélög sem standa að byggðasamlaginu hafi ekki verið tilbúin að greiða fyrir þá þjónustu sem þau sjálf hafa óskað eftir, að Reykjavík og Hafnarfirði undanskildum.

Eftir á að hyggja hefði verið réttara að láta mismunandi sjónarmið um almenningssamgöngur koma fram, sem endurspeglast í þeirri staðreynd að sveitarfélögin sem fengu stórbætta þjónustu með nýju leiðakerfi en vildu ekki greiða fyrir þá þjónustu sem þau þáðu.

„Slæm fjárhagsstaða Strætó bs. var rædd á fjölmörgum stjórnarfundum síðla árs 2005 og á fyrstu mánuðum þessa árs og fundargerðir voru lagðar fyrir borgarráð og borgarstjórn. Þá var framkvæmdastjórum sveitarfélaganna fullkunnugt um stöðuna enda rædd á þeirra vettvangi, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur boðaði stjórn Strætó bs. sérstakan eigendafund um fjárhagsstöðuna sem var haldinn 22. mars sl. þar sem lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun í krafti þess að Reykjavík var tilbúin að axla ábyrgð á 70% kostnaðarins. Þessi höfnuðu hin aðildarsveitarfélögin og að lokum varð það ákvörðun framkvæmdastjóranna, með vilja stjórnar Strætó bs. að þetta verkefni biði nýrra sveitarstjórna þar sem skammt var til kosninga," segir í yfirlýsingunni.

„Engu var leynt, öllum þeim sem ábyrgð báru í málinu var fullkunnugt um stöðuna en það var ekki vilji allra sveitarfélaga að greiða fyrir veitta þjónustu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×