Innlent

Upplýsingum um Strætó ekki leynt

Upplýsingum um bága fjárhagsstöðu Strætós bs. var ekki haldið leyndum fyrir kosningar, segir fyrrum stjórnarformaður byggðasamlagsins. Mikill pólitískur ágreiningur um reksturinn hafi hins vegar ekki verið gerður opinber - og það kunni að hafa verið mistök.

Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Strætós bs., sagði í viðtali á Rás 2 í gær að það hefðu mögulega verið hennar stærstu mistök í starfi að láta hjá líða að ræða bága fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Aðspurð í morgun hvort það mætti skilja orð hennar svo að það hefði beinlínis verið ákveðið að halda bágri fjárhagsstöðu Strætós leyndri af því að kosningar voru yfirvofandi segir Björk að svo sé ekki. Það hafi verið mikill pólitískur ágreiningur í stjórn Strætós um hvert skyldi stefna. Reykjavíkuborg hafi viljað greiða meira fyrir veitta þjónustu en önnur sveitarfélög ekki.

Þetta hafi ekki verið gert opinbert þar sem jákvæðar leiðarkerfisbreytingar hafi verið að ganga í gegn í marks og ekki vilji til að trufla það. Hins vegar sjá hún eftir á að stjórnin hefði átt að ræða málið og hún sjálf hefði átt að fá fram vilja sveitarfélaganna til að skerða þjónustuna, en það hafi verið raunverulegur vilji þeirra.

Aðspurð hvort Strætó sé að lognast út af segist Björk svo sannarlega vona að svo sé ekki. Um 15 þúsund manns taki Strætó á hverjum degi og þeim þurfi að fjölga. Strætó verði að vera áfram valkostur í samfélaginu því það sé miklu hagkvæmara, bæði út frá efnahagum sjónarmiðum og umhverfislegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×