Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, óskaði eftir því á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag að fulltrúar Landsvirkjunar og hagfræði- og efnhagssérfræðingar kæmu á fund nefndarinnar.
Tilefnið er arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar í ljósi upplýsinga um aukinn kostnað virkjunarinnar. Í tilkynningu frá þingflokki Vinstri - grænna segir að bréf svipaðs efnis hafi verið sent nefndinni 14. febrúar en að það hafi ekki verið rætt hingað til. Pétur H. Blöndal, formaður nefndarinnar, sagði miklar annir hjá nefndinni og því ekki ljóst hvort hægtr væri að taka málið fyrir á næstunni. Hann hafi þó ekki tekið illa í hugmyndina í vor.