Innlent

Nylon í 1. sæti á breska danslistanum

Lag Nylon-söngflokksins vermir efsta sætið á breska danslistanum sem birtur verður í næstu viku. Umboðsmaður stúlknanna segir að ef eitthvað sé lögreglumál, þá séu það þessi tíðindi.

Lagið sem um ræðir er endurhljóðblöndun á gamla Eurythmics-laginu "Sweet Dreams". Lagið fór fyrst í 11. sæti breska danslistans svokallaða í síðustu viku og var svo komið í það 9. í þessari viku. Umboðsmaður Nylon-hópsins, Einar Bárðarson, segist síðan hafa fengið símtal í dag þar sem honum var tilkynnt að á listanum sem birtur verður eftir helgi sitji lagið í efsta sætinu.

Einar segir tíðindin hafa komið sér og stelpunum mjög á óvart, ekki síst í ljósi þess að lagið er "aðeins" á B-hlið smáskífunnar Closer sem áætlað er að komi út þann 23. október. Það hafi svo verið fyrir hálfgerða rælni sem það var sent til nokkurra plötusnúða á dansklúbbum í Bretlandi. Lagið virðist hins vegar falla betur í kramið en nokkrun óraði fyrir.

Það má segja að þetta lag Eurythmics um ljúfa drauma gagnist tónlistarfólki vel í að eltast við drauminn um frægð og frama. Auk Annie Lennox og félaga í Eurythmics stimplaði Marylin Manson sig nefnilega rækilega inn í poppheiminn fyrir nokkrum árum með sinni útfærslu á laginu. Það verður því spennandi að sjá hvort Nylon-stúlkur fylgi velgengninni eftir á næstu mánuðum og árum.

Aðspurður að lokum hvort þessar fréttir séu það stórar að þær geti kallast lögreglumál segir Einar þær svo sannarlega vera það. „Algjört lögreglumál, ef eitthvað er lögreglumál. Bara handjárna þetta strax!" segir umboðsmaður Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×